Starfsreglur og siðferðisleg viðmið Háskólaútgáfunnar (drög)
Markmið
Starfsemi Háskólaútgáfunnar (HÚ) og rit sem gefin eru út á hennar vegum mega ekki brjóta gegn Siðareglum Háskóla Íslands.
Rit á vegum HÚ skulu jafnframt endurspegla gæði og mikilvægi rannsóknanna sem höfundar verka hafa stundað, sem og stofnana sem standa að baki þeim.
Siðareglur þessar setja viðmið fyrir höfunda, ritstjóra og aðra starfsmenn og samstarfsaðila Háskólaútgáfunnar þ.m.t. höfunda og ritstjóra útgáfuverka.
Grundvallarreglan er að allir sinni sínu starfi af heilindum og með heiðarleika og sanngirni að leiðarljósi. Til að tryggja það eiga allir ferlar að einkennast af gagnsæi og áreiðanleika. Eftirfarandi siðferðisleg viðmið hafa að forsendu að HÚ gegni uppbyggilegu hlutverki innan háskólasamfélagsins og að útgáfa á hennar vegum uppfylli siðferðislegar kröfur sem gerðar eru á vettvangi háskóla og vísinda.
Hagsmunaárekstrar
Mögulega hagsmunaárekstra (er gætu varðað starfstitil og stöðu, keypta ráðgjöf, fjárhagslegan stuðning, höfundarrétt og styrki) þarf að tilkynna öllum hagaðilum við fyrsta tækifæri. Höfundar skulu greina frá öllum fjárhagslegum stuðningi og einnig mögulegum hagsmunatengslum sem hægt væri að tengja við niðurstöður eða túlkun rannsóknarvinnu þeirra.
Starfsfólk, stjórn og verktakar HÚ, þ.e. hagaðilar, geta ekki gefið út hjá HÚ vegna mögulegra fjárhagslegra tengsla, hagsmuna og áhrifa á fjárhagslega afkomu verks. Ritstjórar sem hafa einhvers konar hagsmuni tengda handriti (til dæmis vegna samkeppni, samvinnu eða annars konar tengslum við höfund(a), fyrirtæki eða stofnanir sem standa að baki handritinu) skulu ekki koma að mati á gæðum handrits heldur skulu aðrir ritstjórar eða ritstjórnarfulltrúar fengnir til verksins.
Trúnaður
Engar upplýsingar skulu gefnar um innsend handrit nema til höfunda(r) handritsins, ritstjóra, mögulegra ritrýna, ritrýna sem taka að sér verkið og ritstjórnarlegra ráðgjafa, nema skrifleg heimild höfunda(r) liggi fyrir. Handrit sem send eru í ritrýni skal fara með sem trúnaðarskjöl. Þau má ekki sýna eða ræða við aðra nema með leyfi höfunda(r) og/eða ritstjóra, eftir því sem við á.
Óbirt efni sem fram kemur í innsendu handriti má ekki nota í rannsóknir ritstjóra eða ritrýnis án skriflegs leyfis höfundar. Upplýsingar og hugmyndir sem koma fram í ritrýni skal gæta trúnaðar um og má ekki nota í eigin hagsmunaskyni.
Starfsfólk Háskólaútgáfunnar fylgir persónuverndarstefnu Háskóla Íslands.
Gagnsæi
Allir ferlar hjá HÚ skulu vera gagnsæir, gagnkvæm upplýsingaskylda er um útgáfuferlið og ábyrgðaraðilar geta beðið um upplýsingar frá HÚ. Ef ágreiningur skyldi rísa geta ábyrgðaraðilar sent erindi til stjórnar HÚ. Grundvallarupplýsingar um útgáfuferli og skilmála má finna á vefsíðu HÚ (www.haskolautgafan.is) og fyrirspurnum um ítarlegri upplýsingar verður svarað í tölvupóstum. Aðstandendur bóka geta hvenær sem er í ferlinu fengið upplýsingar um vinnslu og/eða fjárhagslega stöðu verks á þeim tímapunkti.
Ritstjórnarlegt sjálfstæði
Stefna útgáfunnar byggist á ritstjórnarlegu sjálfstæði, þ.e. að fagleg ritstjórnarleg sjónarmið ráði för.
Ákvörðun um útgáfu: Starfsfólk HÚ tekur sameiginlega ákvörðun um það hvort verk skulu gefin út, á grundvelli gæðamats ritstjóra. Ritstjórar HÚ leita sér ráðgjafar sérfræðinga ef ástæða er til. Tekið er tillit til lögfræðilegra atriða á borð við hugsanleg meiðyrði, hatursorðræðu, brot gegn höfundarrétti og ritstuld. Ritstjórar HÚ geta hvenær sem er í vinnsluferli bóka ráðfært sig við aðra ritstjóra, ritrýna eða ráðgjafa. Allar ritstjórnarlegar ákvarðanir skulu teknar án tillits til kynþáttar, kyns, aldurs, kynferðis, trúarskoðana, ríkisborgararéttar, uppruna eða pólitískra lífsskoðana höfunda.
Árvekni varðandi birt efni:
- Hafi HÚ í höndum vísbendingar um að rangfærslur séu í efni eða niðurstöðum birts efnis skal HÚ fara fram á að aðstandendur bókar sannreyni þær.
- Hafi HÚ fullvissu um að rangfærslur séu í efni eða niðurstöðum krefst hún leiðréttingar þar um, efnið sé dregið til baka eða annars konar viðeigandi tilkynningum komið á framfæri.
- Berist ritstjórum athugasemdir um að birt efni brjóti gegn siðferðislegum viðmiðum skulu þeir skrá þær niður og koma á framfæri við höfund, stofnun og aðra sem málið varðar, og bregðast við á viðeigandi hátt.
Ritrýnar
Ritrýnar sem telja sig ekki hæfa til að ritrýna handrit eða vita að þeir geta ekki brugðist við innan settra tímamarka ættu strax að láta ritstjóra vita svo ritrýni dragist ekki úr hófi.
Ritrýnar skulu fylgja leiðbeiningum á matsblaði ritrýnenda á vegum HÚ og meta verk út frá þeim viðmiðum sem þar eru gefin.
Ritrýni ætti að vera heiðarleg, hlutlaus og laus við persónulega fordóma. Persónuleg gagnrýni í garð höfunda(r) er óviðeigandi. Ritrýnum er uppálagt að setja skoðanir sínar fram á skýran hátt og rökstyðja þær.
Ritrýni felur meðal annars í sér að benda á aðrar rannsóknir eða útgefin verk sem skipta máli en höfundi hefur láðst að vísa til. Ritrýnum sem benda á að hugmynd, greining eða rökfærsla hafi áður birst ber að fylgja því eftir með tilheyrandi dæmum. Ritrýnar ættu þannig að gera ritstjóra viðvart um mikilvæga hliðstæðu eða skörun milli handritsins og annarra birtra verka sem þeir vita af til að koma í veg fyrir rit- eða hugmyndastuld.
Höfundar
Framsetning frumrannsókna þarf að gefa raunsanna mynd af rannsóknarvinnunni og þeim gögnum sem liggja að baki. Að auki skal umfjöllun um mikilvægi rannsóknarinnar vera hlutlæg. Framsetning falskra eða viljandi ónákvæmra staðhæfinga felur í sér brot á siðferðislegum viðmiðum HÚ. Umfjöllun um önnur verk skal gefa hlutlæga, sannferðuga og sanngjarna mynd af þeim. Höfundi ber að ganga úr skugga um að ekkert í rannsóknum hans eða skrifum stangist á við lög eða vinnu- og siðareglur viðeigandi stofnana. Rétt einstaklinga til persónuverndar ber alltaf að virða.
Ritstuldur tekur á sig margar myndir, allt frá því að höfundur birti heil verk annarra sem sín eigin eða hafa eftir, orðrétt eða endurorðað, hluta af verkum annarra án þess að geta heimilda; þannig lætur hann í veðri vaka að rannsóknarniðurstöður annarra séu hans eigin. Ritstuldur, í hvaða formi sem er, felur í sér brot á siðferðislegum viðmiðum HÚ. Þegar höfundar skila inn frumsömdum verkum skulu þeir því vísa rétt til allra heimilda. Þeim ber þannig að nefna allar heimildir sem stuðst er við. Ekki skal vísað til upplýsinga sem gefnar hafa verið í einkasamskiptum, svo sem samræðum eða tölvupósti, nema með skriflegu samþykki heimildarmanns. Upplýsingar sem fást við meðhöndlun trúnaðargagna, svo sem við ritrýni handrita eða mat styrkumsókna, má ekki nota nema fyrir liggi skriflegt samþykki höfunda(r).
Almennt skulu höfundar ekki birta sömu niðurstöður í fleiru en einu ritverki. Það telst hvorki viðunandi né siðleg hegðun að senda sama handritið á fleiri en einn útgefanda á sama tíma, né að senda inn handrit sem birt hefur verið áður en það felur í sér brot á siðferðislegum viðmiðum HÚ, nema sérstakar aðstæður réttlæti það og allir aðilar sem málið varðar séu upplýstir um það.
Höfundar teljast aðeins þeir sem eiga umtalsvert framlag við tilurð, skipulag, framkvæmd eða túlkun rannsóknarinnar sem um er fjallað og skal þeirra allra getið sem slíkra. Aðrir sem koma að rannsókn en teljast ekki höfundar skulu einnig nefndir. Sá höfundur sem ber ábyrgð á samskiptum við HÚ vegna birtingar verks skal sjá til þess að allir meðhöfundar samþykki lokagerð verksins og samþykki útgáfu þess.
Uppgötvi höfundur veigamikla villu eða ónákvæmni í birtu verki ber honum skylda til að draga verkið til baka eða leiðrétta það.
Höfundar sem eru styrkþegar skulu tryggja að þeir uppfylli kröfur styrkveitenda við frágang bókarinnar. Þeir skuli greina frá mögulegum hagsmunatengslum og alltaf taka fram hverjir styrkveitendur eru.
Við gerð þessara siðareglna var tekið mið af International Ethical Principles for Scholarly Publication.
