ÚTGÁFUSKILMÁLAR


Almennir útgáfuskilmálar


Frumhlutverk Háskólautgáfunnar er þjónustustarfsemi við starfsmenn Háskóla Íslands er tengist útgáfu prentaðs máls og efnis á tölvutæku formi. Við útgáfu ritrýnds efnis eru gerðar kröfur í samræmi við ströng alþjóðleg viðmið. Háskólaútgáfan selur veitta þjónustu og höfundar þeirra verka er hún tekur að sér eru fjárhagslega ábyrgir fyrir útgáfuverkum sínum, eða einstakar rannsóknastofnanir skólans fyrir þeirra hönd. Hér á eftir fer lýsing á verkferli útgáfunnar er skýrir einstaka ábyrgðar- og verkþætti höfunda og útgáfu: 

  • Höfundur/stofnun leggur fram handrit sem metið er af HÚ hvort hæft er til útgáfu.     
  • Gerð er frum-kostnaðaráætlun miðað við fyrirliggjandi lýsingu handrits, eðli þess og umfang. 
  • Höfundur/stofnun leggur fram fjárhagslega tryggingu fyrir útgáfukostnaði.
  • Þegar samþykkt handrit liggur fyrir, er stofnað sérstakt verknúmer í bókhaldi HÍ fyrir bókina. Kostnaðaráætlun er færð á útgáfusamning þar sem tilgreindir eru framleiðsluþættir og kostnaður þeirra ásamt verkáætlun fyrir útgáfuna og vinnu hennar. 
  • Höfundur eða forstöðumaður stofnunar undirritar samninginn ásamt ritstjóra/skrifstofustjóra HÚ. 
  • Höfundur/stofnun greiðir grunngjald til útgáfunnar kr. 600.000.
  • Höfundar, stofnanir eða aðrir verkbeiðendur bera fjárhagslega ábyrgð á útgáfuverkum sínum. Skrifstofustjóri útgáfunnar veitir nánari upplýsingar um skilmála útgáfunnar.

Gjaldinu er ætlað að mæta tilkostnaði útgáfunnar við aðstöðu og nauðsynlegan tækjabúnað; frumundirbúning útgáfunnar, s.s. áætlanagerð, öflun tilboða og samskipti við verktaka sem koma að verkinu: kynningar- og markaðsstarf, allan almennan pappírs- og póstkostnað sem og skrifstofukostnað. Grunngjald miðast við útgáfu á 250 bls. bók. Séu bækur lengri að umfangi eða þarfnast viðamikillar ritstjórnar er greitt sérstaklega fyrir þá vinnu sem umfram er. Þannig felst í grunngjaldi samræming og tveir yfirlestrar (m.v. samning FÍBÚT og Rithöfundasambands Íslands).

Útgáfan útvistar vinnu við m.a. umbrot og kápuhönnun eða annast milligöngu þar um. 
Útgáfan sér um dreifingu og sölu allra bóka, sem og kynningu þeirra gagnvart helstu fjölmiðlum. Einnig kynningar á markhópa með auglýsingum á Facebook og er sá kostnaður er af kynningunni hlýst innifalinn í grunngjaldi.

  • Auglýsingar eru gjaldfærðar sérstaklega. 
  • Söluþóknun útgáfunnar er 30% af skilaverði (útsöluverð – 11% vsk – söluþóknun verslana 30-35%). 
  • Lagergjöld reiknast ekki.
  • Hagnaður af útgáfu bóka er höfundar sem og tap.
  • Styrkir sem útgáfuverk hafa hlotið, s.s. ritstjórnarstyrkur, styrkur frá Miðstöð íslenskra bókmennta, útgáfustyrkir Rannís o.s.frv., skulu lagðir inn á verknúmer viðkomandi bókar.
 
Leiðbeiningar um frágang handrita - hafið samband við Egil Arnarson ritstjóra

 

Prófarkir

Prófarkir eru sendar höfundum til yfirlestrar, þ.e síðupróförk eftir umbrot. Þær skulu lesnar og leiðréttar og sendar um hæl til ritstjóra. Handrit er ekki sent með próförk svo að nauðsynlegt er að höfundar haldi eftir afriti í upphafi. Á próförk skal aðeins gera nauðsynlegar leiðréttingar og höfundar mega búast við að verða látnir greiða þann kostnað sem hlýst af annars konar breytingum (frávikum frá samþykktri lokagerð). Um aðferðir við leiðréttingu prófarka má vísa í Íslenskan staðal, ÍST 3, Handrit og prófarkir. Háskólaútgáfan útbýr að jafnaði ekki sérprent úr greinasöfnum. Höfundar geta pantað slík sérprent um leið og þeir skila fyrstu próförk en þurfa þá að greiða sérstaklega fyrir þau samkvæmt reikningi.

Skil á handriti undirbúin

Hér eru talin nokkur atriði sem gott er að fara skipulega yfir áður en handriti er skilað:

  • Vistið hvern kafla fyrir sig, undir viðeigandi heiti og númeri. Merkið athugasemdagreinar með númerum og byrjið á 1 í hverjum nýjum kafla. Þær skulu vera aftast í viðeigandi kafla eða í sérstöku skjali og merktar hverjum kafla fyrir sig. Neðanmálsgreinar verða færðar á sinn stað í umbroti.
  • Þegar handrit er fullbúið skal vista allar myndir, gröf og sérhannaðar töflur sem sérstök skjöl er beri sama heiti og tilvísun til þeirra í viðkomandi kafla segir til um (t.d. [Mynd 1], [Tafla 1] o.s.frv.).
  • Textar með myndum, töflum og gröfum birtist í megintextanum einu línubili undir tilvísuninni. Þar komi fram heimild, höfundur myndar, o.s.frv eftir því sem við á.
  • Myndir séu vistaðar á JPEG-, TIFF- eða EPS-formati í nægilega góðri upplausn (300 punktar/tommu fyrir litmyndir).
  • Minnt er á að sérhvert listaverk eða ljósmynd sem háð er höfundaréttarlögum þarf birtingarleyfi. Þessa leyfis þarf höfundur að afla, ekki útgáfan.
  • Skrár yfir stytt nöfn heimilda má hafa næst á undan heimildaskrá ef þær eru fleiri en svo að vel fari á að fella þær inn í heimildaskrána.
  • Heimildaskrá kemur á eftir aftanmálsgreinum ef því er að skipta.
  • Bendiskrár, þ.e. nafna- og atriðisorðaskrár, skulu birtar aftast. Vinnsla þeirra getur ekki hafist fyrr en umbroti er fyllilega lokið og allar leiðréttingar hafa verið færðar inn. 


Gátlisti

Í lokin er rétt að fara yfir eftirfarandi lista áður en handriti er skilað:

  • Hefur áætluð lengd handrits breyst?
  • Eru allar myndir, töflur og gröf vistaðar og rétt auðkenndar í sérstökum skjölum?
  • Fylgja allir myndatextar?
  • Eru öll birtingarleyfi fengin?
  • Stemma allar tilvísanir við heimildaskrá?
  • Er heimildaskrá fullgerð?
  • Er þörf á skrá yfir skammstafanir?


Algengt brot bóka 

Höfundum til glöggvunar fylgja hér upplýsingar um algengasta brot bóka hjá Háskólaútgáfunni:

  • Royal: 153 x 230 mm
  • Demy: 137 x 212 mm
  • Kennslubókabrot: HÚ 240 x 170 mm
 

Ritrýni

Úr matskerfi opinberra háskóla – Reglur um mat á bókum

Hér á eftir er gerð grein fyrir skipulagi og forsendum þeirrar ritrýni og ritstjórnar sem fer fram á vegum Háskólaútgáfunnar. Einnig koma fram upplýsingar um vinnsluferlið frá handriti til bókar. Annars vegar er miðað við handrit sem kemur beint frá höfundi, en hins vegar greinasafn sem kennari við skólann ritstýrir eða er á vegum rannsóknastofnunar við skólann sem í samráði við Háskólaútgáfuna ræður fræðimann til að sinna ritstjórn verksins. Safn greina eftir einn höfund fellur undir annan hvorn flokkinn, í samræmi við tilurð og tilhögun verksins. Þýtt bókarverk með fræðilegu ítarefni (t.d. inngangi), sem kemur til ritrýni, fellur einnig undir annan hvorn flokkinn, allt eftir því um hvers konar verk er að ræða.

Leiðbeiningum um frágang handrita skal fylgt eins nákvæmlega og kostur er. Það auðveldar alla vinnu ritstjóra og umbrotsfólks og stuðlar að því að stytta vinnsluferlið. Jafnframt tryggir það ákveðinn heildarsvip á fræðiritum útgáfunnar. Ef eitthvað er óljóst í þessari lýsingu munu starfsmenn Háskólaútgáfunnar fúslega veita nánari upplýsingar.

Markmið ritrýni og ritstjórnar hjá Háskólaútgáfunni er að tryggja að fullnægt sé alþjóðlegum kröfum um gæði og nýnæmi þeirrar þekkingar sem fram er sett. Kröfurnar varða innihald, vísindaleg vinnubrögð og framsetningu. Þessum kröfum verður fylgt eftir með markvissri ritstjórn ef handrit er samþykkt til útgáfu. Meginþættir ritrýni og ritstjórnar felast í þremur þáttum:

  1. Gæðamat á heildarefni, fræðilegu framlagi (nýnæmi) og framsetningu.
  2. Tillögur um endurbætur á inntaki og almennri framsetningu þar sem því er að skipta.
  3. Ábendingar og tillögur um lagfæringar á einstökum málsgreinum og setningum, orðalagi og allri textameðferð.

 

Handrit og greinasöfn

1) Handrit frá höfundi: Handriti er skilað til Háskólaútgáfu sem tekur það til forskoðunar. Handriti skal fylgja útfyllt upplýsingaeyðublað, um höfundinn þar sem einnig er gerð stuttlega grein fyrir efnistökum handritsins. Að forskoðun lokinni er handrit sent ritnefnd sem gefur umsögn, en hún er skipuð þremur aðilum sem Háskólaútgáfa (2) og Vísindasvið (1) tilnefna. Sé handrit talið uppfylla skilyrði til ritrýni tilnefnir ritnefnd Háskólaútgáfunnar óháðan fræðiritstjóra útgáfunnar af viðkomandi fræðasviði sem ásamt ritnefnd velur verkinu tvo ritrýnendur sem kanna hvort handritið fullnægi þeim kröfum um fræðilegt gildi og framlag, ásamt framsetningu og frágangi, sem lýst er í leiðbeiningum útgáfunnar.

Tilnefndir ritrýnendur gefa umsögn um handritið, leggja til hvort það skuli samþykkt til útgáfu eða því hafnað – eða koma því á framfæri að þeir telji handritið útgáfuhæft að gefnum ákveðnum breytingum. Umsögnin byggist m.a. á rökstuðningi í stuttu máli og, ef við á, almennum tillögum um lagfæringar og úrbætur. Niðurstöður ritrýnenda, ásamt mati ritnefndarinnar, eru síðan kynntar höfundi. 

Fræðiritstjóri liðsinnir höfundi við frágang verksins ásamt fastaritstjóra Háskólaútgáfunnar. Ritstjórarnir gera frekari tillögur um lagfæringar og endurbætur ef þurfa þykir. Er höfundur skilar lagfærðu handriti metur fræðiritstjóri hvort settu markmiði með ritrýni og ritstjórn bókarinnar hafi verið náð. 

Ritstjórar bókar verða tilgreindir á titilsíðu og þess getið, t.a.m. á baksíðu bókarkápu, hver staða höfundar er við Háskóla Íslands, s.b. samþykkt háskólaráðs frá 8. maí 2008 (það á einnig við um þýðendur og höfunda fræðilegra formála). Nafn fræðiritstjóra útgáfunnar er tilgreint á kreditsíðu.

2) Handrit greinasafna: Þegar höfundar við HÍ ráðgera útgáfu greinasafns skal haft samráð við Háskólaútgáfuna um ráðningu fræðiritstjóra sem er sérfróður um hlutaðeigandi viðfangsefni og/eða með haldbæra reynslu af fræðilegum rannsóknum. 

Háskólaútgáfan áskilur sér rétt til að taka greinasöfn ekki til skoðunar fyrr en allar greinar hafa borist.

Sé handrit talið uppfylla skilyrði til ritrýningar tilnefnir Háskólaútgáfan óháðan fræðiritstjóra af viðeigandi fræðasviði sem velur verkinu tvo ritrýnendur ásamt ritstjóra Háskólaútgáfunnar sem kanna hvort handritið fullnægi þeim kröfum um fræðilegt  gildi og framlag, ásamt framsetningu og frágangi, sem lýst er í leiðbeiningum útgáfunnar. Við vinnslu greinasafna skal þannig skilið með skýrum hætti milli ritstjóra bókarinnar og umsjónar með ritrýni greinanna. Ritstjóri bókar getur þó lagt verkinu lið við þessa vinnu í samráði við fræðiritstjóra.

Tilnefndir ritrýnendur gefa umsögn um handritið, leggja til hvort það skuli samþykkt til útgáfu eða því hafnað – eða koma á framfæri að þeir telji handritið útgáfuhæft að gefnum ákveðnum breytingum. Umsögnin byggist m.a. á rökstuðningi í stuttu máli og, ef við á, almennum tillögum um lagfæringar og úrbætur. Niðurstöður ritrýnenda eru síðan kynntar ritstjóra. Sé verkið samþykkt til útgáfu vinnur fræðiritstjóri bókarinnar áfram að frágangi þess í samræmi við athugasemdir ritrýnenda og í samráði við fastaritstjóra útgáfunnar. Er höfundar og/eða ritstjóri skilar lagfærðu handriti metur fræðiritstjóri hvort settu markmiði með ritrýni og ritstjórn bókarinnar hafi verið náð.

Ritstjórn áskilur sér rétt til að hafna handritum eftir forskoðun og á öllum vinnslustigum. Handrit má þó leggja fram á ný að teknu tilliti til athugasemda er fram koma í forskoðun.

Ritum á íslensku skal fylgja útdráttur á ensku en ritum á ensku skal fylgja útdráttur á íslensku. Ritum á öðrum tungumálum (t.d. Norðurlandamálunum) skulu fylgja útdrættir bæði á íslensku og ensku. 

Ritrýni er ekki launuð, samkvæmt ákvörðun stjórnar HÚ og samkomulagi Samráðsnefndar háskólaráðs og Félags háskólakennara um „Fyrirkomulag vegna skilgreindra stjórnunarstarfa“ http://fh.hi.is/files/fyrirkomulagstjórnunarstarfa_2014.pdf
sjá „Umfang og eðli stjórnunarstarfa", liður B. Í þessu er einnig stuðst við alþjóðleg viðmið, þar sem ritrýning er að jafnaði ekki launuð og litið svo á að hún sé n.k. þegnskylda þar sem allir virkir rannsakendur þurfi á ritrýningu eigin handrita að halda á sínum ferli.

 

Gátlisti fyrir markaðs- og kynningarmál Háskólaútgáfunnar

  • Funda með aðstandendum bókar: höfundum, ritstjórum eða fjárhagslega ábyrgum aðilum um markhóp viðkomandi bókar.
  • Halda utan um forsölu ásamt aðstandendum bókar, ef við á.
  • Fara yfir fjölmiðlalandslagið með aðstandendum bókar og komast að því hvaða þættir (útvarp og sjónvarp), blaðamenn, bloggarar eða hlaðvörp o.s.frv. henta til kynningar.
  • Kynningareintök send. Yfirleitt 10-15 stk. á ofangreinda. Stóru miðlarnir fá ávallt send kynningareintök.
  • Kynning innan HÍ í samstarfi við viðkomandi stofnun, höfunda, ritstjóra og samskiptasvið HÍ, eftir því sem við á.
  • Ráðgjöf, sala og/eða utanumhald á útgáfuhófum.
  • Kynning í Bókatíðindum.
  • Sjá til þess að viðeigandi bækur séu lagðar fram til tilnefninga til verðlauna.
  • Auglýsingaherferð á Facebook þar sem skrifstofustjóri Háskólaútgáfunnar velur markhópa. Herferðin stendur yfir í tvær vikur og kostar 10.000 kr.
  • Deila viðtölum og umfjöllunum um bækur á Facebook-síðu Háskólaútgáfunnar.
  • Dreifa í allar helstu bókabúðir landsins og halda góðu sambandi við bóksala og fylgja eftir að bækur séu sýnilegar í bókabúðum.
  • Framkvæmd og sala á bókum á viðeigandi viðburðum, s.s. málþingum, ráðstefnum eða hverju sem við á.
  • Kynning á titlum og höfundum á Bókamessu Félags íslenskra bókaútgefenda í Hörpu í nóvember ár hvert.
  • Kaup á auglýsingum í fjölmiðlum, eftir því sem við á.
  • Sala og utanumhald á bókamarkaði Félags íslenskra bókaútgefenda, eftir því sem við á.