Ójöfnuður á Íslandi – Skipting tekna og eigna í fjölþjóðlegu samhengi

Höfundar: Stefán Ólafsson, Arnaldur Sölvi Kristjánsson

Verknúmer: U201627

ISBN: 978-9935-23-129-1

6.900 kr.
lagerstaða: Til á lager

  • Útgáfuform

Upplýsingar

Háskólaútgáfan kynnir nýja bók, Ójöfnuður á Íslandi – Skipting tekna og eigna í fjölþjóðlegu samhengi, eftir Stefán Ólafsson og Arnald Sölva Kristjánsson. Bókin er afrakstur mikils rannsóknarstarfs sem höfundar hafa unnið að um nokkurra ára skeið. Þeir sækja í smiðjur alþjóðlegra rannsókna á þessu sviði og bera saman langtímaþróun á Íslandi við niðurstöður Thomas Piketty og félaga fyrir helstu vestrænu samfélögin. Höfundar styðjast einnig við fjölda annarra alþjóðlegra rannsókna sem fram hafa komið á síðustu árum og nota víðtæk gögn frá OECD, Eurostat og Luxembourg Income Survey (LIS). Ójöfnuður á Íslandi fjallar um hvernig tekju- og eignaskipting á Íslandi þróaðist frá millistríðsárunum til samtímans. Sýnt er hversu ójafnt tekjur og eignir skiptust fyrir stríð en urðu svo mun jafnari á eftirstríðsárunum. Í um hálfa öld voru Íslendingar, ásamt öðrum norrænum þjóðum, með einna jöfnustu tekjuskiptingu sem þekktist í heiminum. Þjóðfélagið tók síðan stakkaskiptum með verulegri aukningu ójafnaðar á rúmum áratug fram að hruni fjármálakerfisins árið 2008. Þau umskipti tengjast einkum breyttu þjóðmálaviðhorfi og nýjum aðstæðum sem eiga rætur að rekja til stjórnmála, hnattvæðingar og fjármálavæðingar. Þetta er í senn saga mikilla umskipta og raunar mikillar sérstöðu íslensks samfélags. Meginmynstrið í langtímaþróun ójafnaðar á Íslandi var þó svipað og hjá mörgum vestrænum þjóðum, eins og fram kemur í rannsóknum Thomas Piketty og félaga. En sveiflur milli jafnaðar og ójafnaðar voru óvenjumiklar á Íslandi. Bókin byggist á viðamiklum greiningum og alþjóðlegum samanburði á skiptingu tekna og eigna en þróun ójafnaðarins er sett í samhengi við einkenni íslenska samfélagsins til lengri tíma: atvinnuþróun, stjórnmál, stéttaskiptingu, hugarfar, kynjamun, skattamál, vinnumarkað, velferðarríki og þjóðarauð. Stefán Ólafsson lauk meistaraprófi í þjóðfélagsfræðum frá Edinborgarháskóla og doktorsprófi frá Oxfordháskóla. Hann starfar sem prófessor við Háskóla Íslands. Arnaldur Sölvi Kristjánsson lauk meistaraprófi í hagfræði frá Háskóla Íslands og Toulouseháskóla og doktorsprófi frá Oslóháskóla. Hann starfar sem sérfræðingur við norska fjármálaráðuneytið í Osló.

  • Blaðsíðufjöldi: 450
  • Útgáfuár: 2017
  • Fag: Félagsfræði, hagfræði

Oops!

Við eigum ekki umbeðið magn til á lager, prófaðu minna magn.

OK